SPRON verður hlutafélag

Stjórn SPRON samþykkti í dag að undirbúa breytingu sparisjóðsins í hlutafélag og óska eftir skráningu félagsins í OMX Norrænu kauphöllina Íslandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu. Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki er breyting sparisjóðsins í hlutafélag háð samþykki stofnfjáreigenda og Fjármálaeftirlitsins en boðað verður til fundar stofnfjáreigenda í síðari hluta ágúst.

Í fréttatilkynningunni segir að SPRON muni með breytingunni skipa sér í flokk öflugustu fyrirtækja landsins og stuðla að áframhaldandi vexti þess.

Við breytingu sparisjóðsins í hlutafélag skal samkvæmt ofangreindum lögum um fjármálafyrirtæki óháður aðili meta markaðsvirði hans og gagngjald fyrir stofnfjárhluti. Samkvæmt lögunum mun það hlutafé sem ekki rennur til stofnfjáreigenda verða eign sjálfseignarstofnunar sem setja skal á stofn við breytinguna.

Ráðgjafarfyrirtækið Capacent vann mat á áætluðu markaðsvirði SPRON og gagngjald fyrir stofnfjárhluti miðað við 31. mars 2007 en breyting á rekstrarformi sparisjóðsins mun miðast við þá dagsetningu. Niðurstaða Capacent er að eignarhlutur stofnfjáreigenda nemi 85% af hlutafé og eignarhlutur sjálfseignarstofnunarinnar verði 15%.

Megintilgangur sjálfseignarstofnunarinnar er að stuðla að viðgangi og vexti sparisjóðsins að sví er segir í tilkynningunni en auk þess er honum heimilt samkvæmt lögum að úthluta fjármunum til menningar- og líknarmála á starfssvæði sparisjóðsins. Við breytinguna verður því til einn öflugasti styrktarsjóður í landinu. Eigið fé sjóðsins þ.e.a.s. sjálfseignarstofnunarinnar nemur 9 milljörðum króna samkvæmt mati Capacent.

Markaði fyrir viðskipti með stofnfjárhluti í SPRON verður lokað þann 7. ágúst 2007 vegna undirbúnings á fyrirhuguðum breytingum og því mun stjórn ekki samþykkja sölu eða annað framsal stofnfjárhluta eftir þann tíma. Gert er ráð fyrir að eftir lokun stofnfjármarkaðar verði næst hægt að eiga viðskipti með eignarhluti í SPRON í formi viðskipta með hlutafé. Stefnt er að því að óska eftir því við OMX Norrænu kauphöllina Íslandi að SPRON verði skráð í september næstkomandi.

„Markmiðið með breytingu á rekstrarformi yfir í hlutafélag er að gera fyrirtækinu betur fært að takast á við þá öru þróun sem átt hefur sér stað í fjármálaþjónustu á Íslandi. Samkeppnin fer harðnandi, ekki aðeins frá viðskiptabönkunum heldur einnig í vaxandi mæli frá öðrum sparisjóðum og ýmsum fyrirtækjum sem bjóða margvíslega fjármálaþjónustu”, segir Guðmundur Hauksson Sparisjóðsstjóri m.a. í tilkynningunni. „Breytingin er fyrst og fremst formbreyting en ekki stefnubreyting og SPRON mun áfram leggja megináherslu á þjónustu við einstaklinga og fyrirtæki um leið og hægt verður að byggja hratt upp aðra þjónustuþætti og fjárfestingarstarfsemi. Breytingin er því hluti af eðlilegri þróun SPRON á nútímafjármálamarkaði. Stofnfjáreigendur sem átt hafa viðskipti með stofnfé á stofnfjármarkaði eiga í kjölfar breytingarinnar hlutafé í almenningshlutafélagi og er stefnt að því að skrá félagið í kauphöllina.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK