Formaður bankaráðs Seðlabanka Bandaríkjanna, Ben Bernanke, kynnti hagvaxtarspá bankans og verðbólguspá fyrir þingnefnd bandaríska þingsins í dag. Að sögn Bernanke verður hagvöxtur í ár minni heldur en fyrri spár gerðu ráð fyrir en hans helsta áhyggjuefni er þróun verðbólgu.
Stýrivextir Seðlabanka Bandaríkjanna hafa haldist óbreyttir í rúmt ár, 5,25%, og þykir líklegt að þeir muni ekki hækka það sem eftir lifir árs.
Í nýrri hagspá Seðlabanka Bandaríkjanna er gert ráð fyrir því að hagvöxtur verði milli 2,25-2,5% í ár. Er það heldur lægri spá en sú sem bankinn gaf út í febrúar en þar var því spáð að hagvöxtur í ár yrði 2,5-3%. Á næsta ári hljóðar spáin upp á 2,5-2,75% hagvöxt.
Verðbólga í Bandaríkjunum mældist 0,2% í júní, sem er minnsta hækkun verðlags í fimm mánuði. Tólf mánaða verðbólga mælist nú 2,7%, líkt og í maí.