Efnahagslífið mun kólna fremur snögglega er líða tekur á næsta ár í kjölfar gengislækkunar krónunnar. Hagvöxtur verður þó jákvæður á næstu árum sem verður m.a. drifinn áfram af útflutningi. Verðbólgumarkmið mun ekki nást fyrr en í lok árs 2009. Gífurleg óvissa ríkir í íslensku efnahagslífi um þessar mundir, núverandi ástand gæti verið forleikur að öðru þensluskeiði eða upphafið að lengri samdrætti. Þetta kemur fram í nýrri hagspá Greiningardeildar Kaupþings.
Greiningardeild gerir ráð fyrir að gengi krónunnar nái hámarki á þriðja fjórðungi ársins en taki síðan að lækka nokkuð skarpt um miðbik næsta árs.
Í hagspá Greiningardeildar er gert ráð fyrir að hagvöxtur í ár verði 1,8% sem einkum verður drifinn áfram af útflutningi. Efnahagslífið mun hinsvegar kólna fremur snögglega er líða tekur á næsta ár í kjölfar gengislækkunar krónunnar og verðbólguskots af hennar völdum, sem m.a. kemur fram í minnkandi einkaneyslu. Sú kólnun verður þó skammvinn og gerir Greiningardeild ráð fyrir að umsvif í efnahagslífinu taki að aukast á nýjan leik á árinu 2009 vegna ýmissa fjárfestingaverkefna og aukinnar neyslu. Hagvöxtur á árinu 2009 mun mælast í kringum 3%.