Stilla eignarhaldsfélag, félag í eigu Guðmundar Kristjánssonar og Hjálmars Kristjánssonar, hefur ákveðið að framlengja samkeppnistilboð sitt í hlutafé Vinnslustöðvarinnar hf. um fjórar vikur. Gildir yfirtökutilboðið nú til kl. 16:00 mánudaginn 20.ágúst 2007.
Í tilkynningu til Kauphallar OMX á Íslandi kemur fram að ákvörðun um framlengingu tilboðsfrestsins er tekin með tilliti til niðurstöðu samanburðarmats Saga Capital fjárfestingarbanka hf. á, annars vegar, yfirtökutilboði Eyjamanna ehf. og, hins vegar, samkeppnistilboði Stillu eignarhaldsfélags ehf. sem stjórn Vinnslustöðvarinnar kynnti með tilkynningu til kauphallar þann 13. júlí síðastliðinn.
„Er niðurstaða Saga Capital fjárfestingarbanka hf. sú að tilboð Eyjamanna ehf. geti ekki talist sanngjarnt gagnvart þeim hluthöfum sem því er beint að en hins vegar, sé tilboð Stillu eignarhaldsfélags ehf. sanngjarnt gagnvart hluthöfum Vinnslustöðvarinnar hf. og í samræmi við þá verðlagningu hlutafjár sem hluthafar í sambærilegum félögum hafa notið á undanförnum árum," samkvæmt tilkynningu frá Stillu.
„Með hliðsjón af því að mjög skammt er liðið síðan að stjórn Vinnslustöðvarinnar hf. kynnti framangreint mat Saga Capital fjárfestingarbanka hf. á tilboðum til hluthafa og að nú standa yfir sumarleyfi hjá almenningi er óvíst að allir hluthafar Vinnslustöðvarinnar hf. hafi vitneskju um framangreinda niðurstöðu Saga Capital fjárfestingarbanka hf. Þykir Stillu eignarhaldsfélagi ehf. því rétt að gefa hluthöfum lengri frest til þess að ganga frá sölu hlutabréfa sinna en hinn upphaflegi samþykkisfrestur kvað á um.
Framlenging á gildistíma samkeppnistilboðsins hefur engin áhrif á þá sem þegar hafa samþykkt tilboðið og þurfa þeir hluthafar sem þegar hafa skilað inn samþykki sínu því ekki að aðhafast neitt. Framlenging á gildistímanum felur ekki í sér breytingar á samkeppnistilboði Stillu eignarhaldsfélags ehf. í Vinnslustöðina," samkvæmt tilkynningu.