Skuldir heimila við bankakerfið jukust um 11,8 milljarða króna í júní frá fyrri mánuði og nema nú í heild rúmlega 756 milljörðum króna samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands. Hlutfallsleg aukning í mánuðinum var mest meðal gengisbundinna lána sem jukust um 5,6 milljarða króna milli mánaða eða 6,6%. Verðtryggð lán jukust um 6,2 milljarða sem svarar um það bil 1,1% aukningu. Hlutfall verðtryggðra lána af heildarskuldum heimila við bankakerfi er í dag 73% og hlutfall gengisbundinna lána er um 12%. Þetta kemur fram í Hálf fimm fréttum Kaupþings í dag.
Undanfarna mánuði hefur verið mjög góður gangur á fasteignamarkaði og í júní nam heildarvelta á höfuðborgarsvæðinu 28,7 milljörðum króna og 1.033 kaupsamningum var þinglýst, samkvæmt Hálf fimm fréttum.
„Árið eftir innkomu bankanna á íbúðalánamarkað árið 2004 varð gríðarleg aukning verðtryggðra lána en síðan þá hefur dregið jafnt og þétt úr aukningunni. Hins vegar hafa gengisbundin lán aftur farið vaxandi og vöxtur náði hámarki í mars þessa árs er aukningin var 166% milli ára, gengisleiðrétt. Síðan þá hefur dregið lítillega úr aukningu milli ára sem líklega er vegna gífurlega sterkrar krónu. Þrátt fyrir það var gengisleiðréttur vöxtur gengisbundinna lána 86% milli ára í júní," að því er segir í Hálf fimm fréttum Kaupþings.
Erlendar lántökur til hlutabréfakaupa?
Úrvalsvísitala Kauphallarinnar OMXI15 hækkaði um 1,6% í júní og hafði í lok þess mánaðar hækkað um 29,5% frá áramótum. „Almennt er talið að hagstæður tími til lántöku í erlendri mynt sé þegar gengi krónu er veikt. Hins vegar eins og áður hefur komið fram í hálffimm fréttum virðist vöxtur gengisbundinna lána oft hafa verið mikill þegar góður gangur er á hlutabréfamarkaði.
Þá er hugsanlegt að góður gangur á hlutabréfamarkaði á árinu hafi hvatt til lántöku í erlendum gjaldmiðlum til þess að fjármagna hlutabréfakaup, þrátt fyrir sterka stöðu krónunnar," samkvæmt Hálf fimm fréttum Kaupþings.