Greining Glitnis spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) lækki um 0,1% milli júlí og ágúst. Gangi spáin eftir hjaðnar mæld verðbólga úr 3,8% í 3,3%. Verðbólga í upphafi árs var 6,9% og hefur farið lækkandi undanfarna mánuði.
Samkvæmt spá Greiningar Glitnis mun verðbólga vera 3,8% yfir árið í heild en 4,7% yfir næsta ár. „Aukin verðbólga á næsta ári skýrist meðal annars af gengislækkun krónunnar sem við búumst við á næsta ári. Við spáum 0,8% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í september sem skýrist af mestu að því að þá mun sumarútsölum á fötum og skóm vera lokið og haustfatnaður vera kominn í verslanir," samkvæmt Morgunkorni Glitnis.
„Áhrif af sumarútsölum á fatnaði koma yfirleitt fram í verðmælingu Hagstofunnar í júlí og ágúst. Síðustu ár hefur um þriðjungur af útsöluáhrifum komið fram í ágúst og bendir flest til að svo verði einnig í ár. Hækkun gengis krónunnar leiðir einnig til verðlækkunar, í litlum mæli þó. Í því sambandi má nefna að verð á nýjum bílum lækkaði lítillega í síðasta mánuði og er gert ráð fyrir lítilsháttar lækkun í þessum mánuði. Verð á innfluttri matvöru hefur einnig lækkað lítillega sem við gerum ráð fyrir að komi fram á ágústmælingu VNV.
Húsnæðisverð heldur áfram að hækka og vísbendingar eru um að verðhækkun húsnæðis í ágústmælingu VNV verði ríflega 1%. Jafnframt má reikna með verðhækkun nokkurra undirliða sem vega minna. Þar má nefna grænmeti sem jafnan hækkar í verði þegar íslenskt grænmeti kemur í verslanir. Flutningsgjöld á sjó og landi munu hækka um næstu mánaðarmót. Verð á bensíni hækkaði fyrr í þessum mánuði um 1,3%. Frá þeim tíma hefur gengi krónunnar gagnvart dollara hækkað og bensínverð á heimsmarkaði hefur lækkað um 8% frá því það var hæst þann 10. júlí síðastliðinn. Í ljósi þess kom um 2% eldsneytisverðslækkun í gær ekki á óvart," samkvæmt Morgunkorni.
Samkvæmt nýrri verðbólguspá Greiningar Glitnis verður verðbólga á þessu ári lægst í ágúst, 3,3%, en tekur svo að aukast lítillega aftur á haustmánuðum. „Á seinni hluta næsta árs gerum við ráð fyrir að verðbólga verði mest, rúmlega 5%, en lækki fljótt aftur og nái 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans á árinu 2009. Ástæðu aukinnar verðbólgu á næsta ári má rekja til þess að við teljum að gengi krónunnar muni lækka á næsta ári. Í nýrri spá er gert ráð fyrir meiri launahækkun á þessu ári en áður enda er lítið að hægja á launahækkunum samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar.
Grunnáhrif vegna skattalækkunar í mars á þessu ári leiðir til minni mældrar verðbólgu þar til í mars á næsta ári en þá munu áhrifin detta út úr tólf mánaða verðbólgu," samkvæmt Morgunkorni Glitnis.