Uppnám er innan norska stórfyrirtækisins Hydro vegna ákvörðunar stjórnar félagsins um að greiða 35 stjórnendum sérstakar bætur, samtals um 2,3 milljarða íslenskra króna, vegna þess að til stendur að rifta kaupréttarsamningum, sem þeir höfðu áður gert. Stjórnarformaður Hydro sagði af sér í gær vegna málsins að kröfu norsku ríkisstjórnarinnar og látið er að því liggja í fjölmiðlum að stjórnin vilji að Eivind Reiten, forstjóri, og jafnvel fleiri yfirmenn víki.
Reiten sjálfur fær samkvæmt ákvörðun stjórnarinnar jafnvirði 300 milljóna íslenskra króna auk þess sem árslaun forstjórans hækka um 20% frá áramótum og verða jafnvirði um 60 milljóna íslenskra króna.
Deilt er um hvort ákvörðun stjórnarinnar hafi verið í samræmi við norsk lög og í anda ákvörðun norsku ríkisstjórnarinnar um að afnema kaupréttarsamninga stjórnarmanna ríkisfyrirtækja. Norska ríkið á 44% hlut í Hydro.
Jan Reinås sagði í gær af sér embætti stjórnarformanns Hydro. Hann sagði í yfirlýsingu, að hann hefði gert það eftir viðræður við Dag Terje Andersen, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem fer með hlut norska ríkisins í Hydro.
Sérstök eftirlitsstjórn Hydro situr nú á fundi um málið. Þá ræddi framkvæmdastjórn norska Verkamannaflokksins málið í dag og hefur Jens Stoltenberg, forsætisráðherra, boðað til blaðamannafundar í dag.