Hollenski bankinn Rabobank gaf í dag út svonefnd krónubréf fyrir 25 milljarða króna. Bréfin eru til 18 mánaða og bera 12,5% vexti. Landsbankinn er umsjónaraðili útgáfunnar. Fram kemur í Vegvísi Landsbankans, að aðeins ein útgáfa jöklabréfa hafi verið stærri, eða 40 milljarðar, og hún var einnig á vegum Rabobank.
Landsbankinn segir, að Rabobank hafi verið nokkuð fyrirferðarmikill á sviði útgáfu krónubréfa.
Heildarupphæð útistandandi krónubréfa er nú um 400 milljarðar króna sem jafngildir um þriðjungi áætlaðrar landsframleiðslu þessa árs. Greiningardeild Landsbankans segir, að húin hafi talið miklar líkur á að stærstur hluti þeirra 86,5 milljarða króna bréfa, sem falla á gjalddaga í september verði framlengdur. Veiking krónunnar að undanförnu auki aðeins líkur á að svo verði.