Tap á rekstri 365 eftir reiknaða skatta nam 45 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við 1327 milljóna tap á rekstrinum á sama tímabili á síðasta ári. Tekur félagsins nam 2814 milljónum króna á ársfjórðungnum samanborið við 2770 milljónir á sama tímabili í fyrra.
Á fyrri hluta ársins var hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta 413 milljónir en var 119 milljónir á sama tímabili 2006. Nettó fjármagnsgjöld námu 170 milljónir en þar á meðal var nettó gengishagnaður 268 milljónir. Handbært fé og markaðsverðbréf námu 733 milljónum í lok tímabilsins. Eigið fé var 6403 milljónir og eiginfjárhlutfall var 35,3%.
Ari Edwald, forstjóri 365, segir í tilkynningunni, að rekstrarárangur á fyrri helmingi ársins sé vel viðunandi og staðfesti viðsnúning á rekstri félagsins. Sérstaklega sé ánægjulegt hve rekstur fjölmiðlahlutans hafi gengið vel á öðrum ársfjórðungi en hann skilaði félaginu 229 milljónum fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta. Þá hafi mikilvægt skref verið stigið til að styrkja stöðu félagsins til framtíðar, með sölu á eignum og endurfjármögnun sem lauk nýlega.