Hagnaður á rekstri finnska flugfélagsins Finnair á öðrum ársfjórðungi jókst mikið ef miðað er við sama tímabil í fyrra. Forsvarsmenn félagsins segja útlit fyrir áframhaldandi vöxt en farþegum félagsins fjölgaði um 14% milli ára. FL Group á rúmlega 22% hlut í Finnair og Straumur Burðarás um 5%.
Hagnaður Finnair nam 25,8 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi samanborið við 400 þúsund evrur á sama tímabili í fyrra. Sölutekjur námu 538 milljónum evra og jukust um 9% milli ára.
Í tilkynningu frá félaginu segir, að aukning farþega hafi verið viðvarandi í Evrópu og farþegum á Asíuleiðum hafi fjölgað um 30% á árinu. Segist félagið búast við áframhaldandi aukningu á báðum þessum svæðum. Finnair hefur m.a. pantað 12 nýar Airbus breiðþotur til að þjóna Asíuleiðum.