Greiningardeild Kaupþings fjallar í ½5 fréttum sínum í dag um þau umbrot, sem eru á alþjóðlegum fjármálamörkuðum um þessar mundir og tengjast vandræðum á húsnæðislánamarkaði í Bandaríkjunum. Segir Kaupþing, að vandræðin séu fyrst og fremst bundin við fyrirtæki sem fjárfest hafa í þriðja flokks lánum og annars flokks lánum og flestir greiningaraðilar teli að hér sé um leiðréttingu að ræða.
Kaupþing segir, að skuldsettir og áhættusæknir sjóðir muni vafalaust bera skarðan hlut frá borði en góður gangur og hagnaður flestra fyrirtækja síðustu ár muni hins vegar auðvelda þeim lífið í heimi dýrari fjármögnununar. Lykilatriði sé hvort kreppan á markaði fyrir þriðja flokks lán breiði úr sér á yfir á aðra lánamarkaði en enn séu ekki mikil merki um slíkt.
„Ef alltaf fer á versta veg er þessi ekki langt að bíða þess sjáist merki annars staðar í hagkerfinu. Allra augu eru nú á þróun einkaneyslu í Bandaríkjunum sem vaxið hefur ívíð hægar en áður, eða um 1,3% á öðrum ársfjórðungi sem er minnsti vöxtur síðan 2005. Á hinn bóginn hefur atvinnuleysi ekki minnkað að undanförnu sem kann að skýrast af miklum fjölda vinnuafls án landvistaleyfis í Bandaríkjunum. Seðlabanki Bandaríkjanna ákvað í vikunni að halda stýrivöxtum óbreyttum í 5,25% og gaf til kynna takmarkaðar áhyggjur af vandræðunum á bandarískum húsnæðismarkaði. Flestir greiningaraðilar telja líkurnar á niðursveiflu í stærsta hagkerfi heimsins vera u.þ.b 1/3," segir í ½5 fréttum.