Seðlabanki Evrópu lagði bönkum á evrusvæðinu svonefnda til 61 milljarð evra í morgun til viðbótar við 95 milljarða evra, sem bankinn lagði til í gær. Er tilgangurinn að reyna að róa fjármálamarkaði, sem eru í uppnámi vegna greiðsluvandræða, sem bandarískir fjárfestingarlánasjóðir hafa lent í og sem hafa haft áhrif á markaði um allan heim.
Seðlabanki Japans veitti einnig um 1 billjón jena, jafnvirði 6,12 milljarða evra, inn á fjármálamarkaði í morgun og bandaríski seðlabankinn lagði til 24 milljarða dala í gær.
Þetta er í fyrsta skipti, sem þessir þrír seðlabankar grípa til samræmdra aðgerða af þessu tagi frá því hryðjuverkaárásirnar voru gerðar á Bandaríkin 11. september árið 2001. Seðlabankar Ástralíu og Kanada hafa einnig tekið þátt í aðgerðunum.
Seðlabanki Evrópu segir í yfirlýsingu að verið sé að fínstilla evrópskan peningamarkað með því að auka lausafé á markaði. Segist bankinn munu fylgjast grannt með þróun mála.
Upphaf óróleikans á fjármálamörkuðum nú má rekja til Bandaríkjanna þar sem vogunarsjóðir veittu svokölluð áhættusöm húsnæðislán til lántakenda sem alla jafna nutu ekki lánstrausts. Lánin sem vogunarsjóðirnir höfðu fengið að láni hjá öðrum lánastofnunum hafa nú unnvörpum komist í vanskil með ófyrirséðum snjóboltaáhrifum um allan heim.