Aflinn í júlí var 116.878 tonn, sem er 28 þúsund tonnum meiri afli en í júlí 2006 en þá var aflinn 88.639 tonn. Fram kemur í tilkynningu, sem Fiskistofa sendi frá sér í gær, að aflaaukning milli ára sé vegna mikils afla af makríl og meiri síldarafla en í fyrra.
Botnfiskaflinn í júlí 2007 var 35.235 tonn sem er tæplega 5 þúsund tonnum minni afli en í júlí í fyrra þegar botnfiskaflinn var 40.310 tonn. Þorskafli í nýliðnum júlí var fjórðungi minni en í júlí 2006 eða 7156 tonn á móti 9660 tonnum í fyrra. Helmingssamdráttur ufsaafla skýrir að mestu samdrátt botnfiskafla milli ára í júlí en ufsaafli var 5001 tonn en aflinn var 10.912 tonn í júlí 2006.
Landað var 48 þúsund tonnum af norsk-íslenskri síld í júlí 2007 en aflinn í júlí í fyrra 35 þúsund tonn. Tæplega 22 þúsund tonnum veiddust af makríl í ár. Í júlí 2006 fór að bera á makríl með síldarafla og aflinn var þá nærri 3 þúsund tonn.
Heildarafli íslenskra skipa á árinu var orðinn 975 þúsund tonn í lok júlí 2007. Það er 97 þúsund tonnum meiri afli en á sama tíma á síðasta ári þegar heildaraflinn janúar - júlí var 878 þúsund tonn. Aukning í afla milli ára stafar af meiri loðnu- og síldarafla í ár. Heildarafli fiskveiðiársins 2006/2007 þegar einn mánuður var eftir var 1.352.782 tonn. Þar af var botnfiskaflinn 490.324 tonn. Á sama tíma á síðasta fiskveiðiári var heildaraflinn 1.204.331 tonn en botnfiskaflinn var þá meiri eða 496.009 tonn.
Rækjuafli var slakur í júlí, þó tæplega fimmfalt meiri afli en í júlí 2006.