Breska blaðið Sunday Telegraph veltir því fyrir sér hvort lát verði nú á því sem breskir fjölmiðlar hafa nefnt víkingainnrásina í breskt atvinnulíf og hafi m.a. byggst á aðgengi íslenskra fyrirtækja, einkum Baugs Group, að ódýru lánsfé. Nú sé útlit fyrir að lánsfé verði dýrara vegna óróans, sem er á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði.
Blaðið segir, að bæði Baugur og íslenskt efnahagslíf hafi notið mikillar velgengni undanfarin ár. Baugur fjármagni fjárfestingar sínar með þrennum hætti. Í fyrsta lagi afli fyrirtækið fjármagns með því að kaupa og selja hlutabréf í fyrirtækjum. Þannig hafi Baugur grætt 50 milljónir punda á því að kaupa hlutabréf í Marks & Spencer á síðasta ári og selja aftur á réttum tíma.
Í öðru lagi geri það fjármögnunarsamninga við banka á borð við Kaupþing, Glitni og Bank of Scotland sem hafi veitt félaginu lán sem nemi hundruð milljónum punda. Í þriðja lagi endurfjármagni Baugur fyrirtæki, sem félagið eignist, og noti það fé sem þannig aflast í aðrar fjárfestingar. Frá því í vor hafi verslunarkeðjurnar Iceland og Jane Norman verið endurfjármagnaðar og afraksturinn sé 422 milljónir punda.
Blaðið segir að allar þessar leiðir hafa orðið fyrir áföllum í þróun síðustu daga. En Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs, segir að félagið hafi búist við afturkipp í nokkurn tíma. Segir hann að Baugur hafi haldið að sér höndum í fjárfestingum undanfarið, m.a. vegna þess að fyrirtæki hafi verið of dýr. Þess vegna geti Baugur mætt áföllum á fjármálamarkaði vegna þess að greiðslur fyrirtækisins af lánum séu vel viðráðanlegar.
Þá segir hann, að þótt Baugur hafi umtalsverða kaupgetu hafi fyrirtækið varið miklum tíma í að byggja upp og endurskipuleggja önnur fyrirtæki í eigu þess.