Von er á nýjum tölum í dag frá Hagstofunni um vísitölu neysluverðs. Spám greiningardeilda bankanna ber ekki alveg saman um hvað kemur upp úr hatti Hagstofunnar í dag. Greiningar Kaupþings og Landsbankans reikna með 0,1% hækkun á vísitölunni síðan í júlímánuði en Glitnismenn spá 0,1% lækkun. Gangi fyrri spáin eftir þá mun tólf mánaða verðbólga fara úr 3,8% í 3,5%, en svo lítil hefur verðbólgan ekki verið í tvö ár, eða síðan í júlí árið 2005. Bönkunum ber saman um að útsölur og eldsneytislækkun í lok júlí séu að draga úr verðbólgunni en hátt húsnæðisverð haldi, sem fyrr, aftur af lækkunarferli. Bent er á að eldsneyti hafi síðan verið hækkað í byrjun ágúst en það sé ekki inni í væntanlegri mælingu Hagstofunnar í dag.