Kaupþing banki hefur undirritað samning um kaup á öllu hlutafé í hollenska bankanum, NIBC Holding BV fyrir um það bil 2.985 milljónir evra, tæpa 267 milljarða króna, að því er segir í tilkynningu frá bankanum.
NIBC er fyrirtækjabanki, sem var stofnaður 1945. Hann leggur áherslu á þjónustu við meðalstór fyrirtæki í Vestur-Evrópu. Hjá bankanum starfa 718 manns og er hann með starfstöðvar í Haag, Lundúnum, Brussel, Frankfurt, New York og Singapúr. Seljandi er fjárfestahópur undir forystu J.C. Flowers & Co. LLC
Kaupverðið er eins og áður sagði 2.985 milljónir evra, sem svarar til 12,7 x hagnaðar NIBC síðustu tólf mánuði (að 30. júní 2007) og 1,5 x eigin fjár NIBC þann 30. júní 2007. Kaupþing gerir ráð fyrir að yfirtakan muni auka hagnað á hlut á árinu 2008.
Kaupþing greiðir seljanda hluta af kaupverðinu með útgáfu 110 milljóna nýrra hluta á genginu 115,375 sænskar krónur á hlut, samtals að verðmæti 1.360 milljónir evra. Seljandi verður næst stærsti hluthafinn í Kaupþingi. Í samræmi við almenna viðskiptavenju verður seljanda óheimilt að selja alla hlutina í 12 mánuði (e. lock-up period) frá lokafrágangi kaupanna auk þess sem seljanda verður óheimilt að selja um það bil 48 milljónir hluta í 24 mánuði, samkvæmt tilkynningu.
1.625 milljónir evra verða greiddar í reiðufé af handbæru fé, með útgáfu víkjandi skuldabréfa (e. Tier 1) og afrakstri útgáfu á 40 milljónum nýrra hluta sem boðnir verða hluthöfum í forgangsréttarútboði. Gert er ráð fyrir að hlutafjárútboðið fari fram snemma á næsta ári, að því er segir í tilkynningu frá Kaupþingi.