Hlutabréfavísitölur lækkuðu við upphaf viðskipta á Wall Street í dag og er það rakið til óvissu á markaði um hvað Seðlabanki Bandaríkjanna muni gera til þess að reyna að róa markaðinn og hagkerfi landsins. Eins er uppi orðrómur um mögulega yfirtöku á Countrywide Financial, stærsta húsnæðislánabanka Bandaríkjanna, vegna þeirra vandræða sem skapast hafa hjá félaginu vegna mikilla útlánatapa þess.
Ekki bætti úr skák þegar Capital One Financial greindi frá því að það ætlaði að loka GreenPoint Mortgage einingu félagsins sem sinnir fasteignalánum og segja upp 1.900 manns.
Síðar í dag munu þeir Ben Bernanke, formaður bankastjórnar Seðlabanka Bandaríkjanna og fjármálaráðherra landsins, Henry Paulson, hittast auk formanns bankanefndar Bandaríkjaþings, Christopher Dodd, til þess að ræða óróann á fjármálamarkaði.