Samþykkt var á fundi stofnfjáreigenda í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, SPRON, að breyta sparisjóðnum í hlutafélag. 508 mættu fyrir hönd stofnfjáreigenda, og fóru samtals með tæplega 70% atkvæðisréttar. Allir sem mættir voru greiddu atkvæði með breytingunni, en hún er þó háð samþykki fjármálaeftirlitsins. Rætt hefur verið um að skrá félagið í kauphöllinni, en það gerist að öllum líkindum í haust.
SPRON er alhliða fjármálafyrirtæki sem veitir viðskipta- og fjárfestingarbankaþjónustu, og á meðal annars dótturfélögin SPRON Verðbréf, SPRON Factoring, Netbankann, Frjálsa Fjárfestingarbankann og Curron. Um 250 manns starfa hjá fyrirtækinu.