Lægðin sem fjármálamarkaðir hafa gengið í gegnum í kjölfar hruns á húsnæðislánamarkaðnum vestanhafs mun að öllum líkindum verða þess valdandi að aukagreiðslur og afkastatengdar bónusgreiðslur muni snarlækka í fyrsta sinn í fimm ár.
Í samtali við Bloomberg viðskiptavefinn sagðir Gary Goldstein hjá Whitney Group í New York að svartsýnin væri mikil meðal starfsmanna fjármálafyrirtækja á Wall Street.
„Bónuspotturinn fer minnkandi,” sagði Goldstein.
Á fréttavef Bloomberg kemur fram, að bónusgreiðslur í fjármagnsgeiranum vestra hafa verið margföld föst árslaun viðkomandi starfsmanna en í ár er reiknað með að þær greiðslur muni minnka um allt að 5% frá því í fyrra.
Þeir sem áætlað er að komi verst út úr þessu eru þeir sem selja og búa til verðbréf sem byggja á húsnæðislánum og húsnæðislánasjóðum. Talið er að ef sá markaður rétti ekki úr kútnum fyrir áramót muni þriðji hver starfsmaður á honum missa vinnuna og áætlað er að þar geti bónusgreiðslur fallið um allt að 40%.