Glitnir kynnti á blaðamannafundinum skýrslu sem sérfræðingar bankans hafa unnið um bandaríska jarðvarmamarkaðinn, sem Árni segir þann stærsta í heiminum. Með bandaríska dagblaðinu Wall Street Journal fylgdi í dag blað frá Glitni um möguleika jarðvarmavirkjana.
Glitnir áætlar að fjárfestingaþörf sé um 9,5 milljarðar Bandaríkjadala í þeim nýju verkefnum sem þegar eru í undirbúningi á sviði jarðvarmanýtingar í Bandaríkjunum og ætla megi að ljúki á næstu fimm árum. Samanlögð fjárfestingarþörf, á sviði jarðvarmanýtingar í Bandaríkjunum til ársins 2025, er talin vera 39,4 milljarðar dala.
Síðar í dag mun Glitnir opna skrifstofu í New York þar sem mikil áhersla verður lögð á sjálfbæra orkunýtingu. Nánar verður greint frá ráðstefnu sem Glitnir stendur fyrir í dag um sjálfbæra orkunotkun í New York hér á Fréttavef Morgunblaðsins sem og opnun skrifstofu Glitnis í New York.