Mjög skiptar skoðanir eru á nýrri auglýsingu Símans, þar sem spaugað er með síðustu kvöldmáltíðina. Biskup Íslands sagði í gær að auglýsingin væri smekklaus. Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor við Listaháskóla Íslands og dómnefndarmaður í auglýsingasamkeppni ÍMARK mörg undanfarin ár, segir hins vegar auglýsingaherferð Símans greinilega vera að takast.
„Þetta er snilldarherbragð, sérstaklega þar sem búið er að gera þetta að fréttaefni og þeir þurfa ekki lengur að borga fyrir umræðuna."
Guðmundur Oddur segir auglýsinguna góða og vel gerða. „Þarna er verið að beita klassísku myndmáli og að mínum dómi er ekkert við þetta að athuga. Það er spurning hvort ekki sé hægt að gera meiri athugasemdir við notkun kirkjunnar á kristsmyndinni. Hún hefur ekki verið söm í gegnum tíðina og þannig má í raun segja að kirkjan sé að kasta steinum úr glerhúsi með athugasemdum sínum."
Karl Sigurbjörnsson biskup sagði í viðtali við fréttavefinn mbl.is í gær að auglýsingin væri smekklaus. Á Biskupsstofu fengust þær upplýsingar að auglýsandinn yrði þó ekki kærður fyrir guðlast. Linda Waage, upplýsingafulltrúi Símans, segir Símann halda ótrauðan áfram og auglýsa nýju tæknina enda hefði engin kæra borist.
Nánar er fjallað um þetta í Blaðinu í dag