Forstjóri Kaupþings og starfandi stjórnarformaður félagsins, þeir Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson, voru á síðasta ári tekjuhæstu stjórnendur fyrirtækja sem skráð eru í kauphöllina í Stokkhólmi. Frá þessu greinir sænska viðskiptavikuritið Affärsvärlden.
Blaðið hefur reiknað út að þeir Hreiðar og Sigurður hafi hvor um sig fengið um 85 milljónir sænskra króna í heildartekjur á síðasta ári, jafngildi um 797 milljóna króna. Munar þar mest um valréttarsamninga frá árinu 2003 en gengi hlutabréfa Kaupþings hefur hækkað gífurlega síðan þeir samningar voru gerðir.
Til samanburðar nefnir Affärsvärlden að launahæsti forstjóri skráðs sænsks fyrirtækis á síðasta ári var Hans-Holger Albrecht, forstjóri MTG, sem fékk 26 milljónir sænskra króna í heildartekjur. Þá þénaði Olli-Pekka Kalliasvou, forstjóri Nokia, sem er stærsta skráða félag Norðurlandanna, 46 milljónir sænskra króna á árinu og er þannig rétt rúmlega hálfdrættingur á við þessa æðstu stjórnendur Kaupþings.