Sérfræðingar sem Bloomberg-fréttaveitan hafði rætt við spáðu því að nýjum störfum í Bandaríkjunum hefði fjölgað um 100 þúsund í ágústmánuði en þegar tölurnar birtust kom í ljós að þess í stað hefði störfum fækkað um 4 þúsund. Þetta er í fyrsta skipti í fjögur ár sem störfum fækkar í bandaríska hagkerfinu og í kjölfarið létu sérfræðingar í ljósi áhyggjur sínar við fréttamenn. Einn þeirra er Zach Pandl, hagfræðingur hjá Lehman Brothers, sem sagði tölurnar vísbendingu um að kreppa gæti verið í aðsigi. Hversu mikil hættan er á því skal ósagt látið en alltént er ljóst að tölurnar gætu verið til marks um að ástandið á fasteignamarkaði vestra og óróinn á fjármálamörkuðum séu farin að hafa meiri áhrif í öðrum kimum hagkerfisins.
Kauphöllin í Tókíó í Japan opnar ætíð fyrst af helstu kauphöllum heimsins og getur því gefið góða vísbendingu um hver þróunin verður á öðrum mörkuðum á meðan jörðin snýst einn hring um möndul sinn. Það er skemst frá því að segja að japanska hlutabréfavísitalan (Nikkei) lækkaði um 0,83% og þar með var takturinn sleginn; gengi hlutabréfa í Evrópu hríðféll þegar kauphallir opnuðu. Í lok dags hafði FTSE-vísitalan breska lækkað um tæp 2% og DAX-vísitalan þýska hafði lækkað um 2,4% þegar upp var staðið.
Eins og gefur að skilja höfðu vinnumarkaðstölurnar ekki heldur mjög jákvæð áhrif á bandaríska fjárfesta enda lækkuðu helstu vísitölur vestra einnig um nær 2% í gær. En eins og segir í upphafi voru það þó ekki einungis tölfræðilegar upplýsingar sem hvekktu fjárfesta. Það gerði Alan Greenspan einnig.
Þótt hinn aldni Greenspan sé ekki lengur seðlabankastjóri vestra hafa áhrif hans síst dvínað. Þegar hann talar leggja flestir við hlustir. Og þegar Alan Greenspan segir fjárfestum að ástandið á mörkuðum heimsins minni hann á þá krampa sem markaðir fengu árin 1987 og 1998 er ljóst að það vekur marga til umhugsunar.