FL Group hefur keypt allt hlutafé í Kjarrhólma ehf. sem á 37,57% í Tryggingamiðstöðinni. Sund ehf. átti 45% hlut í Kjarrhólma, Imon ehf átti 5% og Sólstafir áttu 5% hlut í Kjarrhólma en FL Group átti fyrir 45% hlut í Kjarrhólma.
Í síðustu viku keypti Glitnir 39,8% hlut í Tryggingamiðstöðinni af nokkrum helstu hluthöfum í félaginu en meðal þeirra er Guðbjörg M. Matthíasdóttir, sem hefur verið stærsti hluthafi TM. Þá kom fram að tilkynningu frá Glitni til kauphallar OMX á Íslandi að bankinn hygðist selja allan hlutinn til hóps fjárfesta og að viðræður þar um væru hafnar. FL Group er stærsti hluthafinn í Glitni með um 32% hlut.
FL Group hefur selt Sólmon ehf. 90 milljónir hluta í FL Group á genginu 25,7 en salan er liður í uppgjöri á kaupum á hlutafé í Kjarrhólma ehf. Sólstafir og Imon eiga hlutaféð í Sólmon að jöfnu. Þorsteinn M. Jónsson er eigandi Sólstafa og Magnús Ármann er eigandi Imon ehf. Magnús Ármann er stjórnarformaður Sólmon ehf. Icon ehf. er eigandi 448.487.889 hluta í FL Group og Materia invest ehf. er eigandi 404.411.765 hluta í FL Group. Magnús og Þorsteinn eiga þriðjung hvor í Icon og Materia invest, samkvæmt tilkynningu.