Hlutfall vanskila af útlánum í lok 2. ársfjórðungs 2007 er tæplega 0,6% samanborið við 0,7% í lok 1. ársfjórðungs 2007 og rúmlega 0,5% í lok árs 2006. Frá árslokum 2005 hefur hlutfallið verið á bilinu 0,5–0,7%, sem eru lægstu vanskilahlutföll sem sést hafa á því rúmlega 6 ára tímabili sem yfirlitið nær yfir, að því er segir á vef Fjármálaeftirlitsins.
Vanskilahlutfall fyrirtækja er 0,5% í lok 2. ársfjórðungs 2007 sem er óbreytt samanborið við árslok 2006. Vanskilahlutföll fyrirtækja miðað við eins og tveggja ára tímatöf eru 0,6% og 1,0%. Vanskilahlutfall einstaklinga er 0,8% í lok 2. ársfjórðungs 2007 sem er nánast óbreytt hlutfall frá lokum tveggja næstu ársfjórðunga á undan. Vanskilahlutföll einstaklinga miðað við eins og tveggja ára tímatöf eru 0,9% og 1,4% og eru þau lægstu sem yfirlitið sýnir, eða á sex ára tímabili
Ragnar Hafliðason, aðstoðarforstjóri FME segir á vef FME þessi vanskilahlutföll vera þau lægstu sem sést hafa á því rúmlega 6 ára tímabili sem yfirlitið nær yfir.
,,Vanskilahlutföllin eru nú í sögulegu lágmarki. Þó ber að athuga að útlánaaukningin á undanförnum misserum kann að koma fram í auknum vanskilum síðar. Í því sambandi er rétt að benda á að þátttaka innlánsstofnana í fasteignalánum frá og með seinni hluta ársins 2004 kann að hafa haft áhrif á þróun vanskila sem sýnd er á yfirlitinu, einkum vanskilahlutfall einstaklinga”, segir Ragnar.