Íslendingar kaupa dönsk hótel

D’Angleterre við Kóngsins Nýjatorg.
D’Angleterre við Kóngsins Nýjatorg.

Íslenska fjárfestingarfélagið Nordic Partners hefur undirritað samning við Remmen Hotels, sem er í fjölskyldueigu, um kaup á fasteignum og rekstri hótelanna D’Angleterre, Kong Frederik og Front í miðborg Kaupmannahafnar. Auk hótelanna og tilheyrandi veitingastaða kaupir Nordic Partners einnig rekstur veitingastaðarins Copenhagen Corner við Ráðhústorgið. Kaupverðið er ekki gefið upp.

Nordic Partners er fjárfestingarfélag í eigu fjögurra fjárfesta og er forstjóri og aðaleigandi er Gísli Reynisson. Framkvæmdastjóri á Íslandi er Bjarni Gunnarsson og í Lettlandi Daumants Vitols. Stjórnarformaður Nordic Partners er Jón Þór Hjaltason. Saga þess nær aftur til 1997 þegar það tók þátt í einni fyrstu einkavæðingu Lettlands. Félagið á eignir á Íslandi, í Litháen, Eistlandi, Lettlandi, Póllandi, Danmörku og víðar. Á Íslandi rekur félagið sælkeraverslanir undir nöfnunum Gallerí Kjöt, Fiskisaga og Ostabúðin.

Í tilkynningu er haft eftir Gísla Reynissyni hjá Nordic Partners, að félagið hafi keypt yfir 200.000 fermetra af fasteignum það sem af er árinu. Félagið hafi hug á að reka hótelin og veitingastaðina til lengri tíma og gert sé ráð fyrir að Tony Baks, framkvæmdastjóri hótelanna, og lykilstarfsmenn haldi áfram.

Hótelið D’Angleterre er við Kongens Nytorv og á sér yfir 250 ára sögu. Hótel Kong Frederik stendur við Ráðhústorgið en þar eru m.a. Queens Pub og veitingahúsið Brasserie Le Coq Rouge. Hótel Front er við höfnina í Kaupmannahöfn, gegnt nýja óperuhúsinu, og í tveggja mínútna göngufæri frá Nyhavn. Copenhagen Corner er við Ráðhústorgið og Tívolí.

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans var ráðgjafi kaupenda en Landsbankinn fjármagnaði kaupin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK