Íslenska fjárfestingarfélagið Nordic Partners hefur undirritað samning við Remmen Hotels, sem er í fjölskyldueigu, um kaup á fasteignum og rekstri hótelanna D’Angleterre, Kong Frederik og Front í miðborg Kaupmannahafnar. Auk hótelanna og tilheyrandi veitingastaða kaupir Nordic Partners einnig rekstur veitingastaðarins Copenhagen Corner við Ráðhústorgið. Kaupverðið er ekki gefið upp.
Nordic Partners er fjárfestingarfélag í eigu fjögurra fjárfesta og er forstjóri og aðaleigandi er Gísli Reynisson. Framkvæmdastjóri á Íslandi er Bjarni Gunnarsson og í Lettlandi Daumants Vitols. Stjórnarformaður Nordic Partners er Jón Þór Hjaltason. Saga þess nær aftur til 1997 þegar það tók þátt í einni fyrstu einkavæðingu Lettlands. Félagið á eignir á Íslandi, í Litháen, Eistlandi, Lettlandi, Póllandi, Danmörku og víðar. Á Íslandi rekur félagið sælkeraverslanir undir nöfnunum Gallerí Kjöt, Fiskisaga og Ostabúðin.
Í tilkynningu er haft eftir Gísla Reynissyni hjá Nordic Partners, að félagið hafi keypt yfir 200.000 fermetra af fasteignum það sem af er árinu. Félagið hafi hug á að reka hótelin og veitingastaðina til lengri tíma og gert sé ráð fyrir að Tony Baks, framkvæmdastjóri hótelanna, og lykilstarfsmenn haldi áfram.
Hótelið D’Angleterre er við Kongens Nytorv og á sér yfir 250 ára sögu. Hótel Kong Frederik stendur við Ráðhústorgið en þar eru m.a. Queens Pub og veitingahúsið Brasserie Le Coq Rouge. Hótel Front er við höfnina í Kaupmannahöfn, gegnt nýja óperuhúsinu, og í tveggja mínútna göngufæri frá Nyhavn. Copenhagen Corner er við Ráðhústorgið og Tívolí.
Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans var ráðgjafi kaupenda en Landsbankinn fjármagnaði kaupin.