Gjaldeyristekjur af ferðamönnum jukust verulega á öðrum ársfjórðungi samanborið við sama tímabil á síðasta ári, samkvæmt tölum sem Seðlabankinn hefur birt og Ferðamálastofa vitnar til. Tekjur af innlendri neyslu hafa hækkað úr 11 milljörðum í 14,4 milljarða eða um 31%. Fargjaldatekjur hafa hækkað minna eða úr 6,4 í rúma 6,6 milljarða eða sem nemur 4,2%.
Magnús Oddsson, ferðamálastjóri, segir á vef Ferðamálastofu, að þessar niðurstöður séu afar jákvæðar enda sjái menn það þegar rýnt sé betur í þær að neysla á hvern ferðamann hækki úr 76.599 í 80.925 krónur eða um 5,6%. Þegar farið sé enn aftar, eða til ársins 2000, þá komi í ljós að neysla hvers gests hafi hækkað um 20,1% að núvirði eða úr 67.359 krónum í 80.925 krónur.