Dómstóll í Svíþjóð féllst í dag á að 56 ára gamall starfsmaður fjárfestingarbankans Carnegie sæti gæsluvarðhaldi vegna gruns um stórfelld innherjasvik. Í gær var 65 ára gamall karlmaður í Malmö úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna sama máls. Talið er að mennirnir hafi svikið út upphæðir sem nema tugum milljóna íslenskra króna.
Bankastarfsmaðurinn neitaði sök þegar hann kom fyrir héraðsdóm í Stokkhólmi í morgun en saksóknari taldi að mikil hætta væri á að maðurinn kæmi undan sönnunargögnum ef hann gengi laus. Rétturinn féllst á þau rök.
Ekki hefur verið upplýst í hverju brot mannanna eru talin hafa falist en lögregla gerði á fimmtudag húsleit á skrifstofum Carnegie.