Biðræðir hafa enn myndast utan við útibú breska bankans Northern Rock í morgun en ótti greip um sig meðal sparifjáreigenda eftir að stjórnendur bankans viðurkenndu á fimmtudag að þeir ættu við lausafjárskort að stríða. Er talið að viðskiptavinir hafi tekið tvo milljarða punda út úr bankanum, eða 260 milljarða íslenskra króna.
Gengi hlutabréfa Northern Rock lækkaði um 32% á föstudag og í morgun hafa bréfin lækkað um nærri 28%. Bréf annarra banka hafa einnig lækkað í morgun, svo sem Alliance & Leicester, HBOS og Bradford & Bingley.
Alistair Darling, viðskiptaráðherra Bretlands, sagði í dag að efnahagur landsins myndi standa af sér þetta áfall. Hann sagði, að sparifjáreigendur gætu tekið út fé sitt, en ítrekaði, að breskt efnahagslíf stæði styrkum fótum og lágir vextir myndu gera stjórnmálamönnum og embættismönnum kleift að fást við þetta tiltekna vandamál.
Lausafjárskortur Northern Bank er rakinn til kreppunnar á bandarískum fasteignamarkaði og vanda sem tilkominn er vegna svokallaðra áhættusamra húsnæðislána. Northern Rock hefur sérhæft sig í húsnæðislánum, en útlán fjármagnar bankinn með lánum frá öðrum bankastofnunum og með takmörkuðum tekjum sem hann hefur af innlánum viðskiptavina. Í kjölfar kreppunnar á húsnæðismarkaðnum vestanhafs hefur hins vegar orðið erfiðara fyrir Northern Rock, rétt eins og aðra, að tryggja fjármögnun sína.
Vangaveltur eru nú um, að reynt verði að finna kaupanda að bankanum en Englandsbanki hefur staðfest, að staðið verði við loforð um allt að 4 milljarða punda neyðarlán þótt eigendaskipti verði að Northern Rock. Fréttir bárust af því að samkeppnisyfirvöld hefðu komið í veg fyrir að Lloyds TSB legði fram tilboð í bankann en talið er hugsanlegt að bankarnir HSBC og HBOS komi fram með tilboð.