Viðskiptaráð telur óhjákvæmilegt að taka afstöðu til Evrópumála

Frá afmælisfundi Viðskiptaráðs Íslands
Frá afmælisfundi Viðskiptaráðs Íslands mbl.is/Golli

Það er brýnt að auka stöðugleika í efnahagslífinu og í því óhjákvæmilegt að taka afstöðu til stöðu Íslands í Evrópumálum og skoða hversu heppilegur gjaldmiðill krónan er þegar horft er til framtíðar. Þetta kom fram í máli Finns Oddssonar, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands, á 90 ára afmæli ráðsins. Finnur kynnti í dag skýrslu sem hefur að geyma 90 afmælistillögur Viðskiptaráðs að bættri samkeppnishæfni Íslands. .

Meðal atriða sem tekin eru fyrir í skýrslunni eru skattamál en þau hafa löngum verið Viðskiptaráði hugleikin, en ráðið hefur ávallt mælt fyrir lækkun skatta og einföldu og gagnsæu skattaumhverfi.

Reynsla síðustu ára sýnir að þau skref sem stigin hafa verið til skattalækkunar hafa verið til heilla en margt bendir til að þau séu ekki fullnýtt. Því er lagt til að komið verði á flötu skattkerfið sem felur í sér lækkun skatta og afnám hliðarskatta, samkvæmt skýrslu Viðskiptaráðs.

Lagt er til að haldið verði áfram að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að halda vexti ríkisútgjalda í skefjum þannig að heildarútgjöld hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu dragist saman. Til að koma á jafnvægi í ríkisfjármálum er mikilvægt að stjórnvöld taki í ríkara mæli þátt í jöfnun hagsveiflna, að því er segir í skýrslunni.

Auka á samningsfrelsi

„Þróun vinnumarkaðar og lífeyrismála hefur verið með ágætum að undanförnu. Það eru forréttindi að búa við að helsta vandamál á vinnumarkaði sé skortur á starfsfólki. Það eru líka forréttindi að hér sé lífeyrissjóðakerfi með uppsafnaðar eignir sem nema 1.600 milljörðum króna, vel rúmlega landsframleiðsla Íslands. Þetta megum við þakka sveigjanlegum vinnumarkaði með einföldu regluverki og vel uppbyggðu lífeyrissjóðakerfi. Á þessum grunni er mikilvægt að byggja frekari framfarir, svo sem aukið samningsfrelsi og frekari samræmingu á réttindum og skyldum á vinnumarkaði. "

Fyrirtæki fái frelsi til að færa uppgjör og skrá hlutabréf í erlendri mynt

„Frjálsræði hefur verið lykilhugtak í umbreytingu íslensks viðskipta- og fjármálaumhverfis. Aukið frelsi á fjármálamörkuðum hefur leyst úr læðingi krafta sem hafa gerbylt íslensku samfélagi. Á skömmum tíma hefur fjármálaþjónusta vaxið í það að vera ein af höfuðatvinnugreinum þjóðarinnar. Íslensk fyrirtæki hafa sótt út fyrir landsteinana og nú er svo komið að hagkerfið er orðið samtvinnað alþjóðamörkuðum. Nauðsynlegt er að styðja við þessa þróun með enn meiri sveigjanleika, t.d. með aukinni skilvirkni opinbera þjónusustofnana og frelsi fyrirtækja til að færa uppgjör og skrá hlutabréf í erlendri mynt. Þannig skapa stjórnvöld hagfelld skilyrði fyrir íslensk fyrirtæki og auka líkur á að erlend fyrirtæki sæki hingað í auknum mæli."

Auka á einkaframkvæmd í mennta- og heilbrigðismálum

„Ein af megináherslum í starfi Viðskiptaráðs frá stofnun hefur verið á menntamál, enda fátt til meiri hagsbóta fyrir viðskiptalíf en öflugt, vel menntað starfsfólk. Einkaframkvæmd hefur nú þegar sannað gildi sitt í menntamálum og því er lagt til að það fyrirkomulag verði nýtt í auknum mæli á öllum skólastigum, auk þess sem leggja verður meiri áherslu á uppbyggingu alþjóðlegs náms í takti við þarfir atvinnulífsins. Það sama á við um heilbrigðisgeirann, þar sem kraftar einkaaðila eru mjög vannýttir. Hvort þjónustan er fjármögnuð með skattfé eða einkavædd að fullu er val, en mikilvægt er að skoðanaágreiningur um hlutverk hins opinbera komi ekki í veg fyrir þann ávinning sem hlotist getur af einkarekstri," að því er fram kom í erindi Finns er hann kynnti tillögur Viðskiptaráðs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK