Gríðarleg uppsveifla varð á hlutabréfaverði á Wall Street í dag eftir að Seðlabanki Bandaríkjanna tilkynnti um stýrivaxtalækkun um 0,5%. Dow Jones vísitalan hækkaði um 335,97 stig, eða 2,51%. Hefur vísitalan ekki hækkað um meira en 300 stig á einum degi frá 14. október 2002 og er vísitalan nú einungis 1,9% lægri heldur en þegar hún náði sínu hæsta gildi um miðjan júlí, 14.000,41 stig. Lokagildi Dow Jones í kvöld er 13.739,39 stig.
Nasdaq vísitalan hækkaði um 2,71% í dag og er 2.651,66 stig. Standard & Poor's 500 vísitalan hækkaði um 2,92% og er 1.519,78 stig.
Þrátt fyrir að flestir hafi vonast eftir vaxtalækkun í dag áttu hins vegar fæstir von á því að hún yrði jafn mikil og raun bar vitni eða 0,5%. Stýrivextir Seðlabanka Bandaríkjanna höfðu verið óbreyttir frá því um mitt síðasta ár, 5,25% er hækkunarferli sem staðið hafði frá árinu 2003 lauk. Jafnframt lækkaði Seðlabanki Bandaríkjanna skammtímavexti til lánastofnana um 0,5% í 5,25%. Þann 17. ágúst lækkaði Seðlabankinn þessa vexti einnig um 0,5%, í 5,75%.