Stjórn Seðlabanka Bandaríkjanna hefur ákveðið að lækka stýrivexti bankans um 0,50%, úr 5,25% í 4,75%. Er þetta heldur meiri lækkun en sérfræðingar á fjármálamarkaði gerðu ráð fyrir en samkvæmt meðalspá Reuters meðal greiningaraðila var almennt gert ráð fyrir 0,25% lækkun vaxta nú en vextir bankans hafa verið óbreyttir frá því um mitt síðasta ár.
Tilkynning Seðlabanka Bandaríkjanna hafði mikil áhrif á hlutabréfaverð á Wall Street því Dow Jones vísitalan hækkaði um rúm tvö hundruð stig strax eftir að tilkynnt hafði verið um lækkun vaxta.
Rekja má vaxtalækkunina til þeirra vandræða sem hafa verið á lánamarkaði og þær sviptingar sem hafa verið á fjármálamörkuðum undanfarnar vikur ásamt slakri stöðu húsnæðismarkaðar í Bandaríkjunum.