Christopher O'Meara, fjármálastjóri bandaríska fjárfestingarbankans Lehman Brothers, sagði á símafundi með fjárfestum í dag, að það versta væri yfirstaðið vegna lausafjárkreppu, sem valdið hefur uppnámi víða um heim að undanförnu. O'Meara sagði þó að búast mætti við sveiflum á mörkuðum áfram um nokkra hríð.
Lehman Brothers sendi frá sér tilkynningu í dag um afkomu á síðasta ársfjórðungi og var hún betri en fjárfestar höfðu búist við.
„Við teljum að versta lausafjárkreppan sé yfirstaðin en það verða sveiflur á markaðnum áfram. Við getum þó nýtt þær sveiflur á ýmsum sviðum og því horfum við með varkárni en jafnframt bjartsýni fram á veginn," sagði O'Meara.
Það er einkum hækkun markaðsvaxta sem hefur komið illa við Lehman Brothers og hefur bankinn lækkað verðgildi skuldabréfa í eignasafni um 700 milljónir dala. Stærstur hluti þeirra skuldabréfa er á bandarískum markaði.
Þá hefur Lehman Brothers einnig lækkað hagvaxtaspá vegna lausafjárkreppunnar. Ekki er þó búist við samdrætti í Bandaríkjunum.