Hagnaður Eimskips eftir skatta á þriðja ársfjórðungi 2007 nam 14 milljónum evra eða 1,3 milljörðum samanborið við 4 milljónir evra eða 360 milljónir á sama tímabili árið 2006. Rekstrartekjur Eimskips meira en tvöfölduðust milli ára á þriðja ársfjórðungi en þær námu 387 milljónum evra eða 35 milljörðum króna samanborið við 180 milljónir evra eða 16 milljarða á sama tíma árið 2006.
Rekstrargjöld námu 377 milljónum evra eða 34 milljörðum samanborið við 179 milljónir evra eða 16 milljarða árið áður.
Fjármagnsgjöld voru 16 milljónir evra eða 1,4 milljarðar á þriðja ársfjórðungi samanborið við 9 milljónir evra eða 810 milljónir árið áður. Félagið segir, að mikill fjármagnskostnaður skýrist af skammtímaláni vegna yfirtöku félagsins á Atlas Cold Storage í upphafi ársins, eða um 50% af heildarfjármagnsgjöldum. Stefnt sé að sölu hluta fasteigna Atlas fyrir lok rekstrarársins 2007 og verði andvirði sölunnar nýtt til að greiða niður skuldir.