Bandarískir milljarðamæringar hafa orðið enn ríkari á árinu, að því er kemur fram á nýjum lista tímaritsins Forbes yfir 400 ríkustu menn Bandaríkjanna. Í fyrra hefði milljarður dala nægt til að komast á þennan lista en í ár eru auðmennirnir í 380.-400. sæti 300 milljónum dala ríkari en það.
Samanlögð auðæfi þessara 400 manna hafa vaxið um 290 milljarða dala þrátt fyrir sveiflur á fjármálamörkuðum.
Bill Gates, stofnandi Microsoft, er sem fyrr efstur á listanum en eignir hans eru metnar á 59 milljarða dala. Kaupsýslumaðurinn Warren Buffett er næstur með 52 milljarða og spilavítakóngurinn Sheldon Adelson er þriðji með 28 milljarða dala eignir. Kollegi hans, Kirk Kerkorian, kemst í fyrsta skipti í hóp 10 ríkustu manna Bandaríkjanna. Eignir hans eru metnar á 18 milljarða dala og hafa aukist um 9 milljarða á árinu. Það nægir honum í 7. sæti.
Þeir Sergey Brin og Larry Page, stofnendur Google, eru einnig nýliðar á listanum í 5.-6. sæti en eignir þeirra hvors um sig eru metnar á 18,5 milljónir dala.