Stórverslanir, dagblöð, hótel, flugfélög og nú kvikmyndaframleiðsla. Á hverjum degi berast fregnir af kaupum Íslendinga á dönskum fyrirtækjum og nú er það European Film Group (EFG) sem er keypt. Þetta kemur fram á vefnum Copenhagen Capacity en þar er greint frá kaupum 365 á EFG.
Þar kemur fram að þrátt fyrir nafnið, European Film Group, þá sé fyrirtækið einungis með starfsemi í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Var EFG selt á 20 milljónir danskra króna til 365 og Baugs Group. Verður það sameinað Saga Film á Íslandi og 2AM í Bretlandi. Samanlögð velta samstæðunnar á ári er áætluð 350 milljónir danskra króna en félögin verða rekin undir merkjum European Film Group.