Eimskip hefur lokið sölu á 23 kæli- og frystigeymslum í Bandaríkjunum og Kanada fyrir 385 milljónir Kanadadollara, tæpa 24 milljarða króna. Andvirði sölunnar verður nýtt til að greiða niður skuldir vegna yfirtöku á kanadíska félaginu Atlas Cold Storage í nóvember 2006.
Eimskip hefur undanfarið ár yfirtekið bæði Atlas og Versacold. Velta Atlas Cold Storage og Versacold er um 1.200 milljónir Kanadadollarar á ári, samkvæmt tilkynningu frá Eimskip. Samtals reka félögin um 120 kæli- og frystigeymslur í Bandaríkjunum, Kanada, Argentínu, Ástralíu og Nýja Sjálandi og hjá þeim starfa um 8.500 manns.
Heildarkaupverð Atlas og Versacold nam rúmlega 1.800 milljónum kanadadölum. Samkvæmt alþjóðlega matsfyrirtækinu CBRE er verðmæti fasteigna félaganna um 1.600 milljónir kanadadollara, samkvæmt tilkynningu frá Eimskip.
Eimskip hefur nú lokið sölu á fjórðungi þessara fasteigna eða fyrir 385 milljónir kanadadollara. Eimskip leigir svo kæli- og frystigeymslurnar til 20 ára. Andvirði sölunnar verður nýtt til að greiða niður allar skuldir Eimskip vegna kaupanna á Atlas í nóvember 2006. Eimskip vinnur að sölu fasteigna Atlas og Versacold og stefnt er að því að söluferlinu ljúki á næstu mánuðum.