Deutsche Bank, stærsti banki Þýskalands, hefur ákveðið að afskrifa 2,2 milljarða evra, 193 milljarða króna, í tengslum við þá erfiðleika sem hafa verið á bandarískum fasteignalánamarkaði. Þrátt fyrir afskriftir verði bankinn rekinn með hagnaði á þriðja ársfjórðungi. Þetta kemur fram í afkomuviðvörun sem bankinn sendi frá sér í dag.
Samkvæmt tilkynningu frá Deutsche Bank er áætlað að hagnaður bankans nemi 1,4 milljörðum evra á þriðja ársfjórðungi.
Forstjóri Deutsche Bank, Josef Ackermann, segir að þrátt fyrir að síðasti ársfjórðungur hafi verið bankanum erfiður í skauti þá sé framtíðin björt. Bankinn sjái fjölmörg tækifæri í fjárfestingabankastarfsemi á næstu misserum. Hlutabréf bankans hækkuðu um 2,4% eftir að afkomuviðvörunin var gefin út.