Sterling segir verð á flugmiðum muni stöðugt lækka

Flugvél Sterling á Kastrupflugvelli.
Flugvél Sterling á Kastrupflugvelli. mbl.is/GSH

Forsvarsmenn lággjaldaflugfélagsins Sterling segja, að þróunin verði án efa sú, að verð á flugmiðum muni halda áfram að lækka og möguleikar á því að afla tekna með flugmiðasölu séu stöðugt að minnka. Þá sé eins gott að gefa flugmiðana en reyna að afla tekna með ýmsu öðru móti í tengslum við ferðaþjónustu.

„Eftir fimm ár munum við afla tekna með öðrum hætti en að selja flugmiða og ég tel að við munum neyðast til að gefa flugmiðana. Þessa þróun höfum við séð annarstaðar og innan fimm ára mun verðið lækka enn meira," hefur danska blaðið Børsen eftir Michael T. Hansen, markaðsstjóra Sterling.

Blaðið vitnar til þeirra orða Michaels O’Leary, stofnanda lággjaldaflugfélagsins Ryanair, að engin takmörk séu fyrir því hvað flugmiðar geti orðið ódýrir og vonandi verði þeir ókeypis einn góðan veðurdag.

Hansen segir að ekkert lát sé á verðsamkeppni í flugi og því verði Sterling að finna nýjar leiðir til að afla tekna því kostnaður við að flytja farþega í framtíðinni verði meiri en það verð sem farþegarnir greiða.

Meðal þess sem kemur til greina er að reka þjónustu fyrir farþega og útvega þeim bílaleigubíla, hótel og skipuleggja sérstakar ferðir á knattspyrnuleiki og tónleika. Þá vonast Sterling einnig til þess að fá reka spilavíti um borð í flugvélum.

Sterling, sem er með höfuðstöðvar í Kaupmannahöfn, er að stærstum hluta í eigu íslenskra fjárfesta og félaga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK