Þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung tók í gær hikandi skref inn í 21. öldina þegar blaðið kom út með litmynd á forsíðunni og gotneska letrið, sem til þessa hefur verið í fyrirsögnum leiðara, var horfið.
Blaðið sem var stofnað árið 1949, hefur í 58 ára sögu sinni aðeins birt mynd á forsíðu 33 sinnum, síðast þegar Joseph Ratzinger var kjörinn páfi árið 2005. Til þessa hafa allar forsíðumyndirnar verið svarthvítar en á síðustu árum hefur blaðið birt litmyndir á innsíðum. Myndir eru þó sparlega notaðar en í ritstjórnarskrifstofum blaðsins er textinn talinn mikilvægastur og myndir máttu ekki vera það góðar, að þær drægju athygli frá innihaldi fréttanna.
Þar til í gær en þá má segja að blaðið hafi gengið af göflunum. Efst á forsíðunni var litmynd frá Pyongyang í Norður-Kóreu og inni í blaðinu eru litmyndir á nánast hverri síðu. Á forsíðunni eru komnar tilvísanir og dálkastrik eru horfin. Ýmsar aðrar breytingar hafa verið gerðar til að létta útlitið.
Þótt upplag blaðsins sé um 360 þúsund eintök hefur það minnkað um nærri 40 þúsund eintök á síðustu 9 árum. Á sama tíma hefur upplag helsta keppinautarins, Süddeutsche Zeitung, aukist og er nú 440 þúsund eintök.
Fram kemur í danska blaðinu Berlingske Tidende, að gagnrýnendur telji að þótt útlitsbreytingarnar hafi mælst vel fyrir muni ekki duga til að lokka nýja lesendur af yngri kynslóðinni að blaðinu. Fréttir blaðsins séu enn langar og flóknar og skrifaðar þannig, að lesendur þurfa að lesa ýmislegt milli línanna.