Frysti- og kæligeymsla Eimskips í borginni Qingdao í Kína var formlega opnuð í morgun við hátíðlega athöfn. Gríðarlegur viðbúnaður var af hálfu borgaryfirvalda í Qingdao en þau hafa gert samning við Eimskip um leigu á geymslunni og nærliggjandi athafnasvæði til næstu 30 ára. Geymslan er sú stærsta sinnar tegundar í Kína, sem og gervallri Asíu, og stendur á góðum stað við höfnina í Qingdao, sem er þú þriðja stærsta í Kína og meðal tíu stærstu nafna heims.
Viðstaddir opnunina voru Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, borgarstjóri Qingdao og ritari kommúnistaflokksins þar í borg, auk stjórnenda og starfsmanna Eimskips og fjölda annarra Íslendinga sem staddir eru í borginni af þessu tilefni. Þá voru einnig viðstaddir starfsmenn hafnarinnar og geymslunnar, sem höfðu stillt sér upp á hafnarbakkanum líkt og herlið væri. Eftir að klippt hafði verið á borða var pappírsskrauti skotið á loft úr fallbyssum.
Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips, sagði við Morgunblaðið að þetta væri stór dagur í sögu félagsins. Langur undirbúningur væri að baki, þar sem fyrstu viðræður við Kínverja um að fá þessa hafnaraðstöðu hófust fyrir nærri tveimur árum. Hann sagði samstarfið við borgar- og hafnaryfirvöld í Qingdao til mikillar fyrirmyndar.
,,Það er ánægjulegt að sjá að starfsemin er komin á fullt skrið. Á fyrstu 20 dögunum erum við búin að taka við 10 þúsund tonnum, af fjórum skipum sem komu með fiskafurðir frá Alaska til vinnslu hér í borginni. Þaðan koma þær aftur í geymsluna sem fullunnar vöru og eru fluttar út um allan heim,” sagði Baldur.
Sögulegur viðburður, segir forseti Íslands
Ólafur Ragnar Grímsson sagði í ræðu sinni við athöfnina í morgun að opnun geymslunnar væri sögulegur viðburður í samskiptum Kína og Íslands. Að athöfn lokinni sagði hann við Morgunblaðið að opnunin markaði skýr þáttaskil.
,,Þegar ég kom hingað í opinbera heimsókn fyrir tveimur árum vorum við að kanna jarðveginn, og leggja grunn að því að Íslendingar og Kínverjar gætu unnið saman á ýmsum sviðum. Í þeirri heimsókn lagði ég áherslu á að til að sú samvinna næði nýjum stærðum þá yrði að líta á hana þannig að hún fæli ekki aðeins í sér inn- og útflutning milli Íslands og Kína heldur yrðu verkefnin miðuð við heimsmarkaðinn. Að Kínverjar og Íslendingar yrðu bandamenn í sókn á allan heimsmarkaðinn. Atburðurinn í dag staðfestir að þetta er hægt. Fyrirtæki eins og Eimskip, sem á sér sögulegar rætur á Íslandi, tengist sjálfstæðisbaráttu okkar á sínum tíma og var fyrsta skref fátækrar þjóðar fyrir nærri 100 árum til að ná tökum á efnahagslífinu og efla siglingar milli Íslands og umheimsins. Þetta fyrirtæki opnar hér starfsstöð sem mun að lokum verða sú stærsta sinnar tegundar í Kína og allri Asíu, og vera þannig miðstöð í heimsviðskiptum og flutningastarfsemi sem nær yfir veröldina alla,” sagði Ólafur Ragnar.
Opnaði skrifstofu Össurar í Sjanghæ
Forseti Íslands kom ásamt föruneyti sínu til Qingdao frá Sjanghæ í gærkvöldi. Þar var hann viðstaddur opnun skrifstofu stoðtækjafyrirtækisins Össuar í Sjanghæ, sem ákveðið hefur gera þá borg að miðstöð í sinni sókn á Asíumarkað. Aðeins væri ár liðið frá því að Össur ákvað að opna þessa skrifstofu.