Ákveðið hefur verið að auka stofnfé Sparisjóðs Vestmannaeyja, en tillaga þess efnis var samþykkt á fundi stofnfjáreigenda í vikunni. Er sagt frá þessu í Eyjafréttum.
Tillaga meirihluta stjórnar sjóðsins hljóðaði upp á heimild stjórnar til að auka stofnfé um allt að einn milljarð og á hún að gilda til ársloka 2009. Var lagt til að bjóða út 350 milljónir króna fyrir lok þessa árs.
Þá var samþykkt breyting á samþykktum sjóðsins um afnám jafnrar eignar að stofnfjárhlutum og að hér eftir verði einn hlutur ein króna. Þá var ákveðið að hámarkshlutur hvers stofnfjáreiganda verði fimm prósent af útgefnu stofnfé.