Þess eru dæmi að fermetraverðið í íbúðum í gömlum húsum í miðborg Reykjavíkur hafi farið í 400.000, segir formaður Félags fasteignasala.
Er þetta dæmi um vægið sem staðsetning eigna er farin að hafa í verðmati þeirra. Farið sé að líta á það sem lúxus að geta búið og starfað á svipuðum slóðum.
Kaupendur taka þá jafnvel minni og eldri íbúðir í miðborginni fram yfir stærri og nýrri eignir í úthverfum. Segja má, að í Reykjavík gildi nú sömu boðorð í fasteignaviðskiptum og í erlendum stórborgum: Staðsetning, staðsetning, staðsetning.
En formaður félagsins, Ingibjörg Þórðardóttir, segir að fermetraverðið sé jafnvel orðið enn hærra þegar um sé að ræða nýjar lúxusíbúðir í miðborginni eða grennd við hana.