Meðbyrinn sem var á hlutabréfa- og fjármálamörkuðum á fyrri helmingi ársins hefur snúist upp í andbyr á þriðja fjórðungi ársins. Þetta kemur meðal annars skýrt fram í nýrri spá greiningardeildar Kaupþings banka um afkomu fjárfestinga- og rekstrarfélaganna Existu og FL Group á þriðja fjórðungi ársins. Greiningardeildin spáir því að verulegt tap verði af rekstri félaganna eða um 9,6 milljarðar hjá Existu og 27 milljarðar hjá FL Group.
Til marks um þau miklu umskipti sem hafa orðið skömmum tíma má nefna að á fyrri helmingi ársins var Exista rekið með um 71,2 milljarða króna hagnaði og FL Group með 23,1 milljarðs króna hagnaði.
Sem kunnugt er notar Exista hlutdeildaraðferð á eign sína í Kaupþingi banka og Sampo, þ.e. reiknar sér ekki til tekna eða gjalda hækkun eða lækkun á gengi bréfa í þeim félögum heldur hluta af hagnaði þeirra í takt við eign sína í þeim en Exista á 20% í Sampo og 23% í Kaupþingi banka.