Krónan 10-15% of hátt verðlögð samkvæmt Greiningardeild Kaupþings

mbl.is/Júlíus

Krónan er nú um 10-15% of hátt verðlögð ef miðað er við meðal raungengi síðustu 10 ára. Þetta þýðir að bæði laun og verðlag á Íslandi hafa hækkað töluvert umfram það sem þekkist í helstu samkeppnislöndum. Hins vegar má velta fyrir sér hve mikla þýðingu það hefur að bera núverandi gengi krónunnar við sögulegt meðaltal. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Greiningardeildar Kaupþings.

„Gengi krónunnar mun áfram einkennast af sveiflum næstu misseri en samt sem áður haldast nokkuð sterkt. Greiningardeild gerir þó ráð fyrir því að krónan taki dýfu um miðbik 2008 við upphaf vaxtalækkunarferils Seðlabankans. Krónan mun þó rétta sig við aftur vegna hás vaxtamunar við útlönd enda verður svigrúm til vaxtalækkana takmarkað," samkvæmt skýrslu Greiningardeildar Kaupþings.

Vaxtamunur við útlönd helst áfram hár

Greiningardeild gerir ráð fyrir að gengi krónunnar verði fremur sterkt út árið og að gengisvísitalan sveiflist í kringum 116 stig. Mesta óvissan lýtur að framgangi alþjóðlegra vaxtamunaviðskipta (e. carry trade) og má fastlega gera ráð fyrir áframhaldandi sveiflum.

Vaxtamunur við útlönd mun áfram verða umtalsverður en dragast eilítið saman samkvæmt spá Greiningardeildar, eða úr 9% í 6% árið 2009 (m.v. tveggja ára vaxtamun). Um mitt ár 2008 mun gengi krónunnar taka að veikjast en þá verða merki um kólnun hagkerfisins farin að koma fram og vaxtalækkunarferli Seðlabankans hefst.

„Krónan gæti talist ofmetin í augnablikinu í ljósi þess að raungengi krónunnar er u.þ.b. 10-15% yfir 10 ára meðaltali sínu. Hins vegar má búast við að raungengið verði áfram bæði hærra og sveiflukenndara í kjölfarið þess að krónan fór á flot 2001 og erlendir spákaupmenn komu inn á gjaldeyrismarkaðinn árið 2004," samkvæmt gengisskýrslu Greiningardeildar Kaupþings.

Krónan áfram flokkuð sem hávaxtamynt

„Vegna viðvarandi hás vaxtamunar við útlönd mun krónan áfram flokkast sem hávaxtamynt. Hár viðskiptahalli mun gera það að verkum að krónan verður berskjaldaðri en aðrar myntir gagnvart neikvæðri framvindu á alþjóðamörkuðum. Krónan er nú um 10-15% of hátt verðlögð ef miðað er við meðal raungengi síðustu 10 ára.

Þetta þýðir að bæði laun og verðlag á Íslandi hafa hækkað töluvert umfram það sem þekkist í helstu samkeppnislöndum. Hins vegar má velta fyrir sér hve mikla þýðingu það hefur að bera núverandi gengi krónunnar við sögulegt meðaltal. Ljóst er að töluverðar kerfisbreytingar áttu sér stað síðla árs 2004 við innreið erlendra spákaupmanna á íslenskan gjaldeyrismarkað. Frá þeim tíma hefur raungengið bæði hækkað og orðið sveiflukenndara. Í raun má segja að krónan hafi aftengst íslenska hagkerfinu þegar hún fór í flot sem reyndar er velþekkt meðal annarra landa sem hafa farið sömu leið.

Þannig má segja að gengi krónunnar hafi orðið næmara fyrir vaxtamun við útlönd og framvindu alþjóðamarkaða en ónæmara fyrir stöðu utanríkisviðskipta við hagfelld skilyrði á alþjóðamörkuðum. Þegar harðnar í ári kvikna hinsvegar áhyggjur af lökum undirstöðuþáttum s.s. viðskiptahalla sem skilar sér í vaxandi sveiflum á raungengi krónunnar. Ennfremur, ef hagvöxtur heldur áfram að verða hraðari en þekkist í helstu nágrannalöndum og mikill vaxtamunur við útlönd verður viðvarandi er líklegt að krónan verði áfram ofmetin miðað við sögulegt raungengi," samkvæmt skýrslu Greiningardeildar Kaupþings.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK