Danska blaðið Berlingske Tidende segir í dag, að mál, sem Kaupþing hafi höfðað á hendur Ekstra-Bladet vegna greina um íslenska fjármálalíf gæti reynst síðarnefnda blaðinu dýrt, hver sem úrslit málsins verði. Málið er höfðað fyrir enskum dómstóli í Lundúnum og málskostnaður blaðsins gæti orðið yfir 10 milljónir danskra króna, yfir 120 milljónir íslenskra króna þótt það yrði sýknað.
Málið snýst um greinaflokk, sem Ekstra-Bladet birti bæði í prentútgáfu sinni og á netinu. Einnig voru greinarnar þýddar á ensku og birtar á fréttavef blaðsins. Í greinunum var m.a. fullyrt, að Kaupþing færi á svig við skattalög og hefði nýtt sér ýmis skattaskjól í viðskiptum sínum. Kaupþing höfðaði málið fyrir dómstóli í Lundúnum á þessi forsendu, að enskumælandi menn hefðu getað lesið greinarnar. Áður hafði Kaupþing kært Ekstra-Bladet til danskrar siðanefndar en þar var blaðið sýknað.
Berlingske segir, að Ekstra-Bladet reyni nú að ná sátt í málinu og hafi boðist til að greiða Kaupþingi 50 þúsund pund, jafnvirði um 6,3 milljóna króna. Því hafi lögmenn Kaupþings í Lundúnum, Schillings Royalty House, ekki tekið vel.
„Við reynum að ná samkomulagi í upphafi málsins en vitum ekki hvort það tekst. Það er ekkert samkomulag í augsýn nú. Við höfum átt bréfaskipti um þetta. Lögmennirnir eru afar árásargjarnir. Þeir eru alveg óðir. Við erum ekki vanir þessum tóni í Danmörku þegar lögmenn skrifast á," hefur Berlingske eftir Bent Falbert, aðalritstjóra Ekstra-Bladet.
Falberg segir, að tilraunin til að ná samkomulagi sé gerð af fjárhagslegum ástæðum því blaðið telji sig hafa góðan málstað að verja.
Kaupþing hefur krafist þess, að Ekstra-Bladet dragi greinarnar til baka og biðjist afsökunar á þeim. Þá krefst bankinn einnig ótilgreindra skaðabóta.