Björgólfur Jóhannsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, sagði á aðalfundi LÍÚ að svonefnt auðlindagjald á sjávarútveg væri sérstakur landsbyggðarskattur sem dragi máttinn úr sjávarútvegsfyrirtækjum og landsbyggðinni í samkeppni við annan atvinnurekstur.
Björgólfur sagði, að auðlindagjaldið hefði af fræðimönnum verið rökstutt sem gjald á umframhagnað í sjávarútvegi, þ.e. hagnað umfram það sem gerist í öðrum atvinnugreinum.
„En hvar er þessi umframhagnaður? Við sem störfum í greininni höfum að minnsta kosti ekki orðið vör við hann. Það sem við sjáum er sérstakur landsbyggðarskattur sem dregur máttinn úr sjávarútvegsfyrirtækjum og landsbyggðinni í samkeppni við annan atvinnurekstur. Til hvers? Hvaða rök eru fyrir því að skattleggja þann litla hagnað sem er í greininni um tugi prósenta umfram skattlagningu hagnaðar í öðrum atvinnugreinum? Spyr sá sem hvorki veit né skilur. Það er kaldhæðnislegt að nú þegar minnkun aflamarks í þorski liggur fyrir skuli veiðigjaldið á útgerðina hækka um 73% þrátt fyrir niðurfellingu veiðigjalds á þorsk," sagði Björgólfur.
Hann sagði, að það væri skylda LÍÚ að berjast gegn allri mismunun innan sjávarútvegsins og gagnvart öðrum atvinnugreinum. „Ég heiti á sjávarútvegsráðherra að ganga til liðs við okkur í allri baráttu gegn órétti. Hann myndi sóma sér vel sem merkisberi jafnræðis í íslenskum sjávarútvegi," bætti Björgólfur við.