Verð á svonefndri Brent Norðursjávarolíu komst í dag í 86,28 dali tunnan á markaði í Lundúnum og hefur aldrei verið hærra. Miðlarar óttast að skortur verði á framboði á olíumarkaði á næstunni en í ljós kom í gær að birgðir af hráolíu í Bandaríkjunum voru minni en áætlað var. Olía hækkaði einnig á markaði í New York og var 88,58 dalir nú undir hádegið.