Neytendur hér á landi eru nokkru bjartsýnni í október en þeir voru í september og órói á fjármálamörkuðum að undanförnu virðist ekki hafa dregið úr væntingum neytenda svo nokkru nemi. Gallup birti Væntingavísitölu októbermánaðar í morgun og hækkaði vísitalan um tæp 10 stig frá því í september og mælist nú 133,6 stig.
Hæst er mat á núverandi ástandi en sú vísitala mælist 167,9 stig og hefur verið mjög há allt þetta ár. Vísitala væntinga til 6 mánaða er ekki eins há og mælist 110,7 stig í október. Það er 15 stiga hækkun frá fyrri mánuði en mánuðina júlí-september mældist hún undir 100 stigum sem þýðir að í þeim mánuðum voru fleiri neikvæðir en jákvæðir þegar þeir voru spurðir um ástandið eftir 6 mánuði. Væntingavísitalan er tæpum 3 stigum lægri en hún var í október í fyrra, samkvæmt Morgunkorni Glitnis.
„Staða efnahagslífsins er gott sem og atvinnuástand en báðar þessar vísitölur mælast í grennd við 130 stig í október. Vísitala fyrir atvinnuástand lækkaði heldur yfir sumarmánuðina og er ekki loku fyrir það skotið að niðurskurður þorskkvóta og væntur atvinnumissir í sjávarútvegi hafi haft þar áhrif.
Séu undirvísitölur skoðaðar með tilliti til ofangreindrar sundurliðunar, aldurs, búsetu, menntunar, tekna og kyns, hækka allar vísitölur frá fyrri mánuði, að vísitölu fyrir atvinnuástand undanskilinni. Sú vísitala lækkar um tæp 4 stig frá síðasta mánuði en hugsanlegt er að uppsagnir í vinnslu sjávarafurða um síðustu mánaðamót hafi haft þar áhrif. Þrátt fyrir að vísitala fyrir atvinnuástandið hafi helst gefið eftir er mat á atvinnuástandi engu að síður gott," samkvæmt Morgunkorni Glitnis.