Hagnaður bandarísku skyndibitakeðjunnar Burger King Holdings jókst um 23% á fyrsta fjórðungi rekstrarársins. Nam hagnaðurinn á tímabilinu júlí til september 49 milljónum dala eða 35 sentum á hlut. Á sama tímabili í fyrra nam hagnaðurinn 40 milljónum dala eða 30 sentum á hlut.
Tekjur Burger King jukust um 10% og námu 602 milljónum dala í fjórðungnum samanborið við 546 milljónir dala á sama tímabili í fyrra.
Spá greiningardeilda hljóðaði að meðaltali upp á hagnað upp á 33 sent á hlut og að tekjur næmu 597,1 milljón dala.
Alls eru reknir rúmlega 11.200 Burger King veitingastaðir í heiminum og eru rúmlega 90% þeirra reknir í gegnum sérleyfi.